Pekron undirritar styrktarsamning við Andreu Kolbeinsdóttur

Pekron hefur undirritað tveggja ára styrktarsamning við Andreu Kolbeinsdóttur, fremsta langhlaupara landsins.

Andrea Kolbeinsdóttir hefur vakið mikla athygli í hlaupasamfélaginu fyrir góðan árangur undanfarin ár. Hún hefur unnið öll hlaup sem hún hefur tekið þátt í hérlendis síðustu fjögur ár og er þekkt fyrir óbilandi seiglu og metnað. Hún varð meðal annars í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í utanvegahlaupum í Annecy síðasta sumar auk þess að verða fimmfaldur Íslandsmeistari á aðeins sex dögum.

„Við hjá Pekron erum stolt af því að styðja Andreu í hennar vegferð. Andrea er einstök fyrirmynd og speglar þau gildi sem við viljum standa fyrir – úthald, þrautseigju og metnað.” segir Guðrún Nielsen, framkvæmdastjóri Pekron við undirritun samningsins.

Samningurinn mun meðal annars fela í sér stuðning við æfingar og keppnisferðir Andreu. Hún byrjar árið á æfingabúðum á Tenerife og síðan Kenía þar sem hún undirbýr sig fyrir maraþon í maí. Markmiðið hennar er að hlaupa undir 2:35 og slá 26 ára gamalt Íslandsmet. Eftir það setur hún stefnuna á Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum sem fer fram á Spáni í september. Langtímamarkmiðin eru síðan að keppa á Ólympíuleikunum og verða meðal fremstu utanvegahlaupakonum í heimi.

„Þessi samningur er gríðarlega mikilvægur fyrir mig sem atvinnumanneskju í íþróttum. Það að hafa aðila eins og Pekron í baklandinu gerir mér kleift að einbeita mér að því að bæta mig og ná enn lengra í keppnum og er ég þeim gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn,“ segir Andrea.

Next
Next

Laki fasteignir kaupir Rafklett og gengur til viðræðna við Reykjavíkurborg